Landslag/Faðmlag upplifunar- og listasýning

Landslag/Faðmlag er upplifunar- og listasýning sem haldin var fyrst í ágúst 2024 í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Sýningin vekur athygli á mikilvægi nærumhverfis okkar fyrir byggðarþróun og lýðheilsu og eru listaverkin tákn um hvernig landslagið heldur utanum líf okkar líkt og faðmlag. Á sýningunni má sjá hlý og mjúk teppi með myndum af landslagi Dalvíkurbyggðar, unnin úr 10 ára safni Önnu Kristínar. Teppin mynda hóla og skúlptúra í sýningarsalnum og skapa fjölbreytta upplifun fyrir alla aldurshópa. Með þessu er landslagið dregið inn í sýningarrýmið á leikandi og áhugaverðan hátt.

Samhliða sýningunni var haldin listasmiðja fyrir fólk á öllum aldri í Dalvíkurbyggð og var markmið með henni að styrkja listræna hugsun og umhverfisvitund þátttakenda. Á námskeiðinu var farið yfir ferli við hönnun umhverfis með virðingu fyrir náttúru og staðaranda. Þátttakendur unnu hönnunartillögu fyrir útsýnissvæði við Sandinn á Dalvík. Farið var í vettvangsferð þar sem staðarandi svæðisins var kannaður og settar fram hugmyndir að hönnun í skissuformi. Að listasmiðju lokinni voru skissurnar hluti af listasýningunni til að sýna samband náttúru og umhverfishönnunar á listrænan hátt

 
Hafa samband