Framkvæmdirnar í garðinum og nýji pallurinn
Í sumar ákváðum við að fara í framkvæmdir í garðinum og gera nýjan pall. Garðurinn er risastór eða um 600 m² grasflötur og því auðvelt að koma fyrir rúmgóðum palli. Ég teiknaði nokkrar útfærslur af palli og umhverfis hann og mátaði húsgögn til að sjá hversu stóran pall við myndum vilja smíða. Við vildum geta haft heitan pott á pallinum (í framtíðinni), útiborð og garðstóla, blómapotta, grill og sófa.
Við ákváðum að láta steypa pallinn sem réðst m.a. af því að steyptur pallur er viðhaldsminni en timburpallur en líka af því að við höfum svo gott aðgengi að vinnuvélum og ýmsu sem til þarf. Einar eyddi því meira og minna öllu fríinu sínu af sjónum í sumar í garðinum á dráttarvél við jarðvegsskipti. Þá þurfti að þjappa mölina og svo leggja snjóbræðslukerfi og annað. Korter í fiskidag kom svo steypubíllinn og í framhaldi af því þurftum við að vökva pallinn vel og vandlega svo steypan myndi ekki springa. Við þökulögðum svo í kringum pallinn og annars staðar í garðinum og ákváðum að nýta hellurnar sem höfðu áður verið í garðinum fyrir morgunpall framan við hús. Hér eru myndir sem sýna framkvæmdaferlið frá upphafi til enda.
Þessar framkvæmdir gerðu svo ótrúlega mikið fyrir húsið okkar og það munar svo um að hafa stóran og góðan pall. Við ákváðum samt að bíða með að kaupa eða græja garðhúsgögn þar til næsta sumar en keyptum garðstóla og útiarinn. Það er ekkert jafn dásamlegt að sitja úti á ágústkvöldi með teppi yfir sér við arineld og dást að dugnaði sumarsins!
Bestu,
Anna
| Fylgstu með á instagram @okkarheima