DIY rúmgafl

Gestaherbergið okkar er málað með djúpum vínrauðum lit og er því mjög dökkt rými. Til að létta aðeins á rýminu settum við upp ljósar gegnsæjar gardínur fyrir gluggann og til hliðar þykkar ljósdrappaðar gardínur, alveg frá gólfi og upp í loft. Það gerði heilmikinn mun og herbergið varð aðeins léttara og rýmið hærra, smá hótelherbergisstemning. En rúmið stóð eitthvað einmana upp við vegginn og jafnvægið var ekki nógu gott. Því brugðum við á það ráð að smíða saman rúmgafl í sumar sem kom svo ótrúlega vel út. Rúmgaflar geta stundum verið frekar dýrir og því mæli ég með fyrir handlagið fólk að skoða það að smíða sinn eigin. Okkar útfærsla var eins einföld og hægt var, og gerði svo ótrúlega mikið fyrir herbergið.

rumgafl=skissa.jpg

Okkar útfærsla var eins einföld og hægt var, og gerði svo ótrúlega mikið fyrir herbergið. Við þurftum bara eina plötu en við höfðum áður mælt ca. hversu mikið timbur við þyrftum. Gaflinn þyrfti að vera 180 cm breiður, 120-122 cm hár og skaga 10 cm út frá veggnum.

Einn sólríkan sumardaginn vorum við semsagt í framkvæmdarstuði og fórum í timbursölu og völdum eina plötu úr birki með fallegum æðum. Mynstrið í viðnum er mjög ljóst og ekki of áberandi og passar liturinn svo vel inní gestaherberginu og léttir aðeins á því á móti dökka litnum á veggjunum. Þegar heim var komið þá þurftum við að saga plötuna til eftir okkar máli en það er víst yfirleitt hægt að láta gera það fyrir sig hjá helstu timbursölum. Við pússuðum svo alla fleti, horn og hliðar með sandpappír og lökkuðum viðinn með hálfmöttu gegnsæju lakki. Þá púsluðum við bitunum svo saman með því að skrúfa skrúfum í svona vinkiljárn eða hvað það nú heitir. Svo ætluðum við að skrúfa herlegheitin beint á vegginn en föttuðum að við þyrftum að saga smá bita frá neðst útaf gólflistunum. Græjuðum það með smá fiffi og ta-da! Rúmgaflinn kominn uppá vegg og þvílíkur munur. Skal samt segja ykkur leyndarmál, við erum ekki enn búin að festa toppstykkin á gaflinn, en við lifum það alveg af er það ekki.

Hér eru nokkrar myndir frá ferlinu:

Þar sem platan sem við keyptum var meira en nóg gátum við því nýtt afganginn af henni í breitt hilluborð sem við hengdum einnig upp í herberginu. Fyrst var allt pússað og lakkað og svo festi ég hillubera á vegginn og hilluna á. Þar sem hillan er ágætlega breið þá nýtist hún sem snyrtiborð fyrir alla fínu gestina sem hingað koma til okkar.

Hér eru svo myndir af lokaútkomunni:

Þetta var mun auðveldara verk en ég bjóst við og skemmtileg samverustund. Svo er svo gaman að búa til sín eigin húsgögn og maður verður svo stoltur! Mæli með prófa, en með þolinmæðina í botni!

Bestu,
Anna

| Fylgstu með á instagram @okkarheima

HeimaAnna Guðmundsdóttir