Draumafríið á grískri eyju

Instagram er svo ótrúlega skemmtilegur vettvangur til að sækja sér innblástur. Þar er líka orðið hægt að vista myndir og flokka í möppur eins og á pinterest en ég nota instagram mun meira fyrir það. Ég hef uppgötvað ýmsa hönnuði, tískustrauma, áfangastaði og fleira og fleira á instagram og vista það sem gleður augað.

Fyrir nokkru síðan uppgötvaði ég algjört draumahótel á grískri eyju, Casa Cook Kos, á skrolli í gegnum instagram og vá þangað dreymir mig um að vera! Arkitektúrinn, umhverfið, innanhússhönnunin - allt er svo dásamlega fallegt og einkennist af jarðlituðum tónum, einfaldleika og náttúrulegum efnivið. Japanski Wabi Sabi stíllinn einkennir hönnunina - fegurðin í hinu ófullkomna. Ég sjálf heillast ótrúlega af þessum stíl og hef tileinkað mér þessa heimspeki í bland við minn persónulega stíl á mínu eigin heimili. Hér er áhugaverð grein með 5 ráðum til að tileinka sér Wabi-Sabi stílinn - mæli með.

Við skulum skoða nokkrar myndir af þessum fallega stað. Ég fyllist af svo miklum innblæstri og hugarró bara við að skoða og dreyma! Aftast í færslunni hef ég svo tekið saman moodboard með dæmi um hluti og húsgögn sem eru í stíl við yfirbragð hótelsins. Velkomin í draumafrí…

Þegar maður fyllist af innblæstri þá er gaman og sniðugt að hugsa hvort maður geti sjálfur tekið eitthvað frá stílnum. Á myndunum sér maður að náttúruleg efni eins og bast, viður, bambus og leir eru áberandi og jarðtóna hlýjir litir. Til gamans þá tók ég saman moodboard með dæmi um vörur sem eru til í íslenskum vefverslunum. Svo mæli ég alltaf með að skoða það sem maður á heima og prófa að færa til og breyta.

Myndir: Ignant

Bestu,
Anna

| Fylgstu með á instagram @okkarheima

| Í færslunni eru tenglar á íslenskar vefverslanir en ekki er um auglýsingar að ræða heldur dæmi um einstaka vörur.