Gjafahugmyndir fyrir hana
Ég á afmæli í nóvember og þar sem nú styttist í daginn minn þá fór ég að hugsa hvað mig myndi langa í afmælisgjöf. Ég ákvað því að setja saman lista með gjafahugmyndum. Annars er ég alltaf mest hrifin af því að gefa upplifanir eða gjafir sem nýtast fyrir útiveru og frístundir. Til dæmis gjafabréf í slökun, keramiknámskeið, dansnámskeið, hótel, sund o.s.frv. eða gjafabréf fyrir samverustundir eins og bústaðarferð eða spilakvöld. En það er líka alltaf gaman að opna pakka og þá sérstaklega ef gjöfin er tímalaus framtíðareign eða handverk frá þeim sem gefur eins og listaverk eða prjónaskapur.
Hér ákvað ég samt að taka til 8 gjafahugmyndir yfir veraldlegar eignir sem liggja á huga mínum þessa dagana og til innblásturs fyrir ykkur.
1 Gönguskíðapakki | 2 Diskókúlur | 3 Borðlampi úr marmara | 4 Okkarheima veggspjöld | 5 Íslensk ilmkerti | 6 Kryddjurtir í potti | 7 Hvít prjónapeysa | 8 Pottaplöntur
Fyrst og fremst langar mig í gönguskíðapakka fyrir veturinn - framtíðareign sem ýtir undir útiveru! Ég er mikil skíðamanneskja enda æfði ég skíði í mörg ár en ég hef aldrei náð góðum tökum á gönguskíðum en hef mjög gaman af þessari hreyfingu og útivist.
Ég ELSKA diskókúlur! Þær eru fallegar og svo eru þær tákn um stuð og gaman! Ég á nokkrar diskókúlur enda skyldueign á öllum heimilum er það ekki? Maður á aldrei nóg af diskókúlum og mig hefur dreymt um að eiga risastóra til að hengja upp í stofunni.
Þessi lampi er draumur! Óbein birta, gler og marmari - allt uppáhalds! Ótrúlega veglegur og fallegur, tímalaus hönnun.
Ég hannaði fyrir okkarheima þessi veggspjöld og teikna fyrir hvern viðskiptavin. Teikning af heimilinu og nöfn heimilismeðlima, falleg og persónuleg gjöf. Mitt eintak er í ramma á vegg í forstofunni og prýðir sig vel þar.
Ilmkerti eru ótrúlega falleg og ilmandi kósýgjöf og sérstaklega yfir dimmasta vetrartímann.
Kryddjurtir! Mér finnst dásamlegt að fá gjafir og gefa gjafir sem ýta undir núvitund, ræktun og gefa af sér. Því eru kryddjurtir eins og basil, rósmarín og mynta í potti frábær gjöf og tilvalin fyrir matgæðinga.
Kalt úti, kveikt á kertum, undir teppi og í kósýpeysu! Það er eitthvað dásamlegt við hreinar og hvítar prjónaðar peysur.
Undanfarið hef ég gefið vinkonum mínum plöntur í gjafir við hvers kyns tilefni. Að sjá um plöntur nærir mann og svo eru þær mikil heimilisprýði. Inniplöntur sem þurfa ekki of mikla umönnun og eru hæfilega krefjandi eru því góð gjöf. Svo er líka gaman að gefa trjá- eða runnaplöntur í t.d. útskriftar- eða skírnargjöf.
Vona að þessar hugmyndir hafi veitt ykkur innblástur, en munið líka að það er hjartahlýjan og hugurinn sem gildir!
Bestu,
Anna
| Fylgstu með á instagram @okkarheima
| Í færslunni eru tenglar á íslenskar vefverslanir en ekki er um auglýsingar að ræða heldur dæmi um einstaka vörur