Skandinavísk hönnun á hönnunarsýningu í Stokkhólmi
Í síðustu viku fór fram hönnunarhátíð í Stokkhólmi og því mikið um að vera. Þar á meðal er hönnunarsýningin Stockholm Furniture and Light Fair sem hefur verið haldin árlega í 70 ár. Á sýningunni kynna fjölmörg skandinavísk hönnunarfyrirtæki það nýjasta í innanhússhönnun og því mikill innblástur um heitustu trendin. Ég fór núna í annað sinn á sýninguna og eyddi löngum degi á henni, tók mörg hundruð myndir og gekk ca. 20 km! Alla sýningardagana fara fram fjölmargir fyrirlestrar og var þemað í ár umhverfisvæn hönnun og framtíðin. Ég sat til dæmis einn flottan fyrirlestur um hvernig við eigum að hanna borgir framtíðarinnar þannig þær séu lífvænlegri. Semsagt, heill dagur af ótrúlega flottum innblæstri um hönnunarheiminn en ég mæli með fyrir hönnunaráhugafólk að fara á sýninguna að ári.
Hér á eftir er ég búin að taka saman góða samantekt af því sem mér fannst standa uppúr á sýningunni og flottustu trendin árið 2020.
Umhverfisvæn hönnun og náttúruleg efni
Ég fór á sýninguna líka fyrir þremur árum og helsti munurinn finnst mér vera að núna var svo margfalt meiri fókus á umhverfisvæna hönnun. Einföld form, náttúruleg og endingargóð efni. Það virtist vera að annað hvert fyrirtæki væri búið að merkja básinn sinn sem sustainable design sem má kannski túlka á mismunandi hátt, en takturinn virtist vera þannig að fyrirtæki eru að vakna og allir eru að reyna að gera eitthvað fyrir umhverfið og framtíðina. En það fyrirtæki sem var mest til fyrirmyndar var Vestre sem sérhæfir sig í útihúsgögnum fyrir borgarumhverfi og náttúru. Öll húsgögnin þeirra og reyndar allur básinn þeirra á sýningunni eru úr endurvinnanlegum efnum og svo var hægt að fá upplýsingar um kolefnisfótspor hverrar vöru.
Náttúruleg efni voru svo virkilega áberandi svo sem ull, lífrænn textíll, hör, viður, bambus og keramik. Mér fannst ég til dæmis sjá alls staðar svona ísbjarna-sófa með stuttklipptu ullaráklæði - ekki ólíkt þeim sem má finna heima hjá Kim og Kanye.
Plöntur og náttúruverndir með þurrkuðum stráum, blómum og greinum voru áberandi enda falleg og náttúruleg leið til að skreyta heimilið. Ég er enn með klófífu, melgresi og strá í vasa heima sem ég týndi síðasta sumar og heldur sér vel.
Gler og keramik vasar af öllum stærðum og gerðum.
Hlý og falleg gólfteppi og borðstofustólar og borð úr við.
Óbein og þægileg birta
Ég var mjög ánægð að sjá að helsta trendið í lýsingu eru lampar sem gefa frá sér óbeina og þægilega birtu - semsagt ljósgjafinn er ekki sýnilegur. Marmari, brass og dökkir litir voru áberandi og hvítar ópalkúlur sem gefa frá sér óbeina birtu. Lýsing er svo ótrúlega mikilvægur þáttur á hverju heimili og stuðlar að vellíðan á heimilinu og mikilvægt að birtan angri ekki augun. Lampar eru skartgripir heimilisins og búa til ýmiss konar kósý stemningu.
Ljós og mild litapalletta
Eins og þið hafið kannski tekið eftir á myndunum hér frá sýningunni þá var ljós og mild litapalletta í gangi hjá flestum sýningaraðilum. Semsagt, brúnir, ljósir og drappaðir tónar í bland við ljós og dökkgráa liti. Einföld, stílhrein og náttúruleg litapalletta og svo ótrúlega hlý, björt og notaleg. Mig langaði að sjá hvaða litir voru algengastir og tók allar myndirnar mínar og bjó til þessa litapallettu:
Ég vona að þessi færsla hafi verið jafn mikill innblástur fyrir ykkur og sýningin var fyrir mig. Ég er sjálf með fullt af hugmyndum um hvernig mig langar aaaaðeins að breyta til heima hjá mér þegar ég flyt aftur frá Svíþjóð í sumar. Langar að mála smá og einfalda aðeins umhverfið heima.
Þú mátt endilega deila þessari færslu og Okkarheima áfram <3
Bestu kveðjur,
Anna Kristín
| Fylgstu með á instagram @okkarheima