Skyspace: Upplifðu töfra ljóss og lita

Fyrir nokkrum árum bjó ég í Stokkhólmi og var í námi í lýsingarhönnun. Þar kynntumst við verkum bandaríska listamannsins James Turrell sem vinnur með upplifun og skynjun okkar á rýmum (e. spaces). Þannig spilar Turrell vandlega með samsetningu á litum og ljósi í listaverkum sínum, þar sem hann hugar að eiginleikum sjónar okkar – hvernig sjáum við og upplifum ljósið. Um er að ræða innsetningar hingað og þangað um heiminn.

ezgif-7-b6ab0b5f1523.jpg

Eitt af verkum Turrell er staðsett í sænsku sveitinni, í útjaðri Stokkhólms. Þangað fór ég ásamt móður minni eitt laugardagskvöld í júní fyrir nokkrum árum. Listaverkið er í turni, hátt inní skógi á bakvið bleikt og gamalt sjúkrahús og þetta kvöld var enginn á ferli. Við löbbuðum inn í skóginn og að turninum þar sem á móti okkur tók gömul kona sem var mjög litrík og klædd í mörgum lögum af appelsínugulum kjólum. Ég man bara hvað þetta var allt mjög skrítið. Hún kynnti sig sem leiðsögumann og listakonu og gaf mér upp heimilisfang sitt ef einhvern tímann ég vildi kíkja í kaffi.

Þetta listaverk kallast Skyspace. Inn í turninum er klefi með steyptum veggjum og sætum og minnir helst á einangrunarklefa í fangelsi. Þarna áttum við að vera í þrjá klukkutíma og upplifa og skynja töfra ljóss og lita í gegnum sólsetrið. Í þakinu á klefanum var nefnilega hringlaga op þar sem sást í himininn og á steypta veggi klefans var varpað lituðu ljósi. Vegna þess hvernig augun okkar skynja liti, þá var fremur magnað að sitja þarna í einangrunarklefanum og horfa til himins. Eftir því sem leið á þá breyttust litirnir á veggjunum í andstæður við litinn á himninum, og skyndilega upplifði maður himininn grænan, eða fjólubláan, eða rauðan! Þetta var alveg mögnuð og ótrúleg upplifun.

Þetta var mjög sérstök upplifun, þarna í einangrunarklefanum í sænsku sveitinni. Ef þið eigið leið til Stokkhólms, þá mæli ég með að gera sér ferð að Skyspace og upplifa töfrana!

Bestu kveðjur,
Anna Kristín

| Fylgstu með á instagram @okkarheima