Fyrsti í aðventu og jólaföndur
Nú er desember kominn og styttist alltaf í jólahátíðina. Ég setti mér markmið að njóta í desember og vera aðeins meira jóló. Ég er nýkomin heim úr sólarfríi, vikuslökun sem var kærkomið og gott fyrir sálina. Endurnærð, afslöppuð og tönuð! til í jólatíðina sem er framundan. Fyrsti í aðventu þetta árið var því óhefðbundin og eytt á ströndinni að hlusta á hljóðbók í sólbaði.
Þetta verða önnur jólin heima í húsinu okkar og því gaman að læra á og búa til nýjar hefðir. Áður en ég fór til sólarlandanna átti ég yndislegan jólaföndurdag með vinkonu. Við hlustuðum á ljúfa tónlist og áttum góða stund í algjörri núvitund að skapa og njóta. Við nýttum efni sem við áttum í föndurkössum, dagblöð og ýmiss konar rusl til að búa til fallega jólakransa. Hér má sjá afraksturinn, tvær tegundir af krönsum …
Þið megið endilega senda mér myndir eða hugmyndir af jólaskreytingum hjá ykkur. Ég er alltaf að leita mér að innblæstri og gaman að sjá jólahefðir hjá öðrum. Ég hef verið dugleg að skoða undanfarið Pinterest fyrir sniðugar hugmyndir að jólaföndri og heimagerðum jólagjöfum. Um helgina langar mig að búa til litla grenikransa, en ég þarf aðeins að hugsa hvernig ég ætla að útfæra þá. Deili með ykkur ef það heppnast vel og vandlega!
Bestu,
Anna
| Fylgstu með á instagram @okkarheima