Stílhrein lúxusíbúð fyrir 400 milljónir

Þegar ég ákvað að fylgja draumnum mínum um Okkarheima verkefnið og opna bloggsíðu þá skrifaði ég niður um 100 hugmyndir að umfjöllunarefni sem ég vil birta hér. Fjölmargar hugmyndir tengdar heimilinu, lífstíl, umhverfi, hönnun og almennt innblástur sem ég vil deila með ykkur. Sem dæmi má nefna færslur um hvernig er hægt að endurnýta hluti og gera fínt heima hjá sér með því að gefa hlutum nýtt hlutverk. Eða færslur um árstíðartengda hluti eins og ferðalög og garðyrkja eða innlit á heimili og viðtöl við fólk um þeirra heimili og venjur. Semsagt, ég er uppfull af hugmyndum fyrir Okkarheima sem ég er spennt að deila með í framtíðinni.

Nú er ég að koma mér inn í rútínu á nýjum stað og að heiman. Það er skrítið að eiga heimili en vera ekki heima og ég er strax farin að hugsa um að vilja fara mála og breyta til heima! En það bíður til sumars, ef ég verð ekki búin að gleyma þessum hugmyndum þá eða komin með nýjar. Þangað til safna ég mér innblæstri á netrúntinum en þannig rakst ég á þessa flottu og stílhreinu lúxusíbúð í Stokkhólmi sem kostar ekki nema 400 milljónir. Þótt maður sé nú ekki væntanlegur kaupandi þá er gaman að skoða fyrir innblástur. Ég heillast ótrúlega að þessari mildu litapallettu sem einkennir íbúðina og þessa less is more stemningu, svo er gráa eldhúsinnréttingin klikkað flott.

Síðustu innlit sem ég hef birt hér eru ansi grátóna en hlutlausar og mildar litapallettur hafa verið að heilla mig undanfarið. Það má kannski tengja við hversu skýjað hefur verið upp á síðkastið eða hvað! Ég hlakka samt mikið til að fara á hönnunarsýninguna í Stokkhólmi og sýna ykkur helstu hönnunartrendin, og svo fullt af skemmtilegum færslum um hitt og þetta.

Myndir: HusmanHagberg

Bestu kveðjur frá Uppsala,
Anna Kristín

| Fylgstu með á instagram @okkarheima