Tímamót og vor í Svíþjóð

Nei halló og gleðilegt nýtt ár! Fyrsti pósturinn eftir áramót, næstum kominn febrúar! Hér sit ég á kaffihúsi í miðborg Uppsala og fylgist með mannlífinu út um gluggann. Janúar er búinn að líða svo hratt enda einkenndist mánuðurinn af breytingum hjá mér. Eins og ég hef sagt frá á instagram reikningi okkarheima þá er ég flutt fram á sumar til Svíþjóðar. Hér er ég að taka áfanga í mastersnáminu landscape architecture for sustainable urbanisation í sænska landbúnaðarháskólanum í Uppsala. Hér er hálfpartinn komið vor eða veturinn ekki byrjaður, grasið er allavega enn grænt. Ég var í námi í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum og þá man ég eftir að í janúar var alveg -25° frost! Þetta er mjög skrítið og eru til dæmis kirsuberjatrén í Kungsträdgården í Stokkhólmi farin að blómstra smá sem gerist vanalega í apríl/maí.

Framundan hjá mér er semsagt skólalíf en ég ætla jafnframt að leyfa Okkarheima að blómstra ennfrekar á þessu ári. Í byrjun febrúar er ég að fara á risastóra hönnunarsýningu í Stokkhólmi sem ég leyfi ykkur að fylgjast með á instagram og geri svo samantekt um heitustu hönnunartrendin hér á heimasíðunni. Það er dásamlegt að sjá hversu vel þið hafið tekið á móti Okkarheima og verður gaman að sjá þetta yndisverkefni vaxa og dafna.

Þar sem ég er mætt til Svíþjóðar er viðeigandi að innlit dagsins eru inná sænsk heimili. Í gömlu byggingunum í borgunum hér eru svo ótrúlega fallegar íbúðir - hátt til lofts og stórir gluggar, smáatriði í rósettum og listum, kamínur sem eru sannkallað listaverk og svo framvegis. Hér kíkjum við á falleg hönnunarheimili, fyrst hjá Louise Liljencrantz og svo Therese Sennerholt sem hefur unnið mikið með H&M Home. Ljósir, ljúfir og mildir gráir og drapplitaðir tónar í bland við dekkri tóna. Náttúruleg efni, textíll, keramik og viður. Stílhreint og jafnvægi.

Myndir: Nordic Design og LiljencrantzDesign

Bestu kveðjur frá Uppsala,
Anna Kristín

| Fylgstu með á instagram @okkarheima