Menningardagur á Akureyri: Rölt um Lystigarðinn og Listasafnið
Sólríkur og kyrrlátur haustdagur í september. Lauftrén komin í haustlitina og fuglarnir syngja hátt og snjallt, hífaðir af reyniberjunum. Þessi dagur var fullkominn fyrir göngutúr með kærri vinkonu um Lystigarðinn á Akureyri. Hlusta á fuglasönginn, dást að fallegu plöntunum sem prýða garðinn og fá sér svo heitt súkkulaði á fallega kaffihúsinu.
Eftir góðan göngutúr í gróðursælu og kyrrlátu umhverfinu var svo tilvalið að gerast enn menningarlegri og kíkja á sýningarnar á Listasafni Akureyrar. Á listasafninu var ótrúlega skemmtileg innsetning eftir listakonuna Shoplifter sem nefnist Faðmur. Risastórir og litríkir skúlptúrar úr gervihárum hengu í loftinu og eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna þá langaði manni helst að faðma verkin.
Góð uppskrift af menningardegi á Akureyri sem hæfir öllum, mæli með!
Bestu,
Anna
| Fylgstu með á instagram @okkarheima