Rúntur á Siglufjörð

Siglufjörður er litríkur bær á Tröllaskaga. Miðbærinn er sjarmerandi og finnst mér yndislegt að gera mér rúnt til Siglufjarðar frá Dalvík og rölta um, kíkja í búðir og á súkkulaðikaffihúsið. Ég fór nokkrum sinnum til Siglufjarðar sem unglingur að æfa og keppa á skíðum enda mjög gott skíðasvæði þar. Ég fæ alltaf smá stórborgar tilfinningu þegar ég er í miðbænum á Siglufirði enda byggist hann upp á öðruvísi en mörg önnur sjávarþorp á Íslandi. Göturnar liggja í rúðuneti og flestar byggingar eru á nokkrum hæðum. Svo er nýja hótelið svo fallegt og setur sterkan svip á bæjarmyndina en það mætti halda að það hafi alltaf verið þarna. Ég mæli líka með að fara á síldarminjasafnið og rölta um útisvæðið en það er alveg í takt við staðarandann.

Nýlega fór ég með kærri vinkonu á rúntinn til Siglufjarðar í menningarferð í kaupstað. Við fengum okkur að borða í bakaríinu sem er orðið svo huggulegt og röltum svo um göturnar þann gráa rigningardag. Þá settumst við niður í hlýjuna á súkkulaðikaffihúsinu og fengum okkur handgerða súkkulaðimola og heitt súkkulaði.

Bestu,
Anna

| Fylgstu með á instagram @okkarheima

UmhverfiAnna Guðmundsdóttir